Var, er og verður Birna

40.00

Category:

Description

Var, er og verður Birna

Var, er og verður Birna | Nýjar ljósmyndir: Rannveig Einarsdóttir | Texti: Ingibjörg Hjartardóttir | Hönnun: Halla Sigga/Forlagið| Stærð: 17.5 x 20.5 cm | Útgefandi: Mál og menning, Reykjavík | ISBN 978-9979-3-4801-6

 

4 reviews for Var, er og verður Birna

  1. Steingerður Steinarsdóttir

    En mikið er ég glöð að ég las þessa bók.
    Það þarf sterk bein til að standa við sannfæringu sína, hvika aldrei frá því sem maður telur réttast. Í raun eru ekki margar slíkar manneskjur í heiminum ef vel er að gáð. Sumar eru svo heppnar að hugmyndafræði samfélagsins eltir þær uppi og í kjölfarið eru þær krýndar hetjur, snillingar og mannvinir. Birna Þórðardóttir er allt þetta en líka kona, viðkvæm á stundum en þá hlið varð hún að bæla. Til að gegna sínu hlutverki sem samviska þessa þjóðfélags varð hún að klæðast töffaranum, eins og þykkum leðurjakka.
    Ég man vel eftir Birnu, sá hana oft í bænum, heyrði af henni sögur og dáðist að henni úr fjarlægð. Mér fannst hún ótrúlega flott. Hávaxin, eins og ég og bar ævinlega höfuðið hátt. Klæddi sig nákvæmlega eins og henni hentaði best. Lét ekki segja sér að rautt væri eingöngu litur fyrir ungar stúlkur og stutt pils ekki við hæfi eftir fertugsaldurinn. Mig langaði að kynnast henni en var of feimin til að tala við hana. Nú sé ég eftir að hafa ekki hrist af mér uppburðarleysið. Allir vissu að hún var baráttukona, kurteis og rökföst með afbrigðum, manna fróðust um miðbæinn og einn skemmtilegasti leiðsögumaður landsins. Margir höfðu á henni illan bifur, töldu hana öfgafulla og jafnvel beinlínis hættulega. Var, er og verður Birna sýnir hversu auðvelt er að umsnúa orðum og gerðum, gera úr fólki eitthvað sem það alls ekki er. Að rík réttlætiskennd getur verið dragbítur og dýrkeypt þeim sem hafa hana til að bera.
    Ingibjörg Hjartardóttir hefur gefið okkur dásamlega, óvenjulega og áhrifamikla ævisögu. Var, er og verður Birna er frjó og skemmtileg mannlýsing, skreytt einstökum ljósmyndum og sett upp á frumlegan hátt. Það er ljóst að Birna glímir við alzheimer þótt það sé aldrei sagt og Ingibjörg skrifar af einstakri virðingu og hluttekningu. Hún er samt aldrei væmin og sleppir algjörlega að velta sér upp úr hlutunum eins og hendir suma höfunda. Fyrir vikið nær þessi saga að smeygja sér að innstu hjartarótum manns og setjast þar að. Ég sat með tárin í augunum yfir mörgum köflum og grét svolítið þegar ég lagði hana frá mér. En mikið er ég glöð að ég las þessa bók.

  2. Silja Björk Huldu­dótt­ir

    Morgunblaðið 10. desember 2022
    Byltingarkona sem kreppir hnefann
    Viðtal við höfunda um Birnu og tilurð bókarinnar.
    https://re-photowork.com/wp-content/uploads/2023/06/Birna-Mbl.jpg

  3. Jóna Guðbjörg Torfadóttir

    Birna, byltingin holdi klædd
    Í dómi sínum um bókina segir m.a.:
    Bókin er skemmtilega uppbyggð. Henni er skipt upp í 11 kafla sem allir bera mánaðarheiti, og sumir eru ítarlegri og vísa í að snemma eða seint sé liðið á mánuðinn. Bókin hefst í maí 2020 og lýkur í janúar 2021. Á milli kaflanna eru afar vandaðar og fallegar ljósmyndir af Birnu sem Rannveig Einarsdóttir á heiðurinn af.
    Í frásögn Birnu fæst öðrum þræði einlæg innsýn í þennan miskunnarlausa sjúkdóm gleymskunnar en þessi mikla baráttukona mun seint gleymast og er ljóst að þessi bók mun verða fallegur minnisvarði um líf hennar.
    Dóminn í heild má sjá hér: Skáld.is

  4. Kristín Jóhannsdóttir

    Birna er meira en einstök
    Kristín var lesandi vikunnar í Dagskránni og hafði hún þetta að segja um bókina: VAR ER OG VERÐUR BIRNA sem er æfisaga Birnu Þórðardóttur eftir Ingibjörgu Hjartardóttur. Birna er meira en einstök og ef það er einhver sem staðið hefur með sjálfri sér og sinni sannfæringu þá er það Birna Þórðardóttir og mikið er sagan hennar vel skrifuð af Ingibjörgu. Bókin sjálf er líka einstaklega glæsileg. Myndskreytt með fallegum og vönduðum myndum sem eru teknar og valdar af Rannveigu Einarsdóttur.

Add a review

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *